Að fyrirgefa sjálfstæðisflokknum

Það er ekki gott né holt að vera reiður, beiskur og ala á hatri. Þess vegna er mér, sem og tugþúsunda annarra, það raunveruleg þörf að fyrirgefa, leggja Hrunið að baki og horfa fram á veg. Reyna að skilja endanlega við Klúðrið og afleiðingar þess.

 Að fyrirgefa er ferli sem er nokkuð vel skilgreint af aðiljum í félagsvísindum og jú prestum. Gott er að taka einfalt dæmi sem prestar fást reglulega við, að sætta tvo aðila. Við getum hugsað okkur hjón þar sem annar aðilinn braut trúnað og hélt framhjá maka sínum. Ef viljinn er til staðar hjá hjónunum um að sættast er fyrirgefningin lykilatriði til að svo megi verða. Sá sem brotið er á þarf að skynja óhyggjandi iðrun og eftirsjá, leggja þarf öll spil á borðið og viðurkenna hjúskaparbrotið. Það er ekki fyrr en fyrst þá sem hægt er að fyrirgefa. Ef sönn iðrun og einlæg fyrirgefning koma samann er hægt að halda áfram og byggja upp.

Við þurfum ekkert að efast um brot sjálfstæðisflokksins. Þau eru af öðrum toga og annarri stærðargráðu en hjúskaparbrot. Hér misstu menn sjónar á þjóðarhag, hygluðu vanhæfum flokkshestum í opinberar ábyrgðarstöður, eftirlitið var ekkert og ráðamenn voru komnir í tangó og ræl við viðskiptalífið. Þingmenn þáðu miljóna tugi í kosningasjóði frá vafasömum aðilum og siðferðið hrapaði í takt við ris hlutabréfavísitölunar. Sjálfumglaðir stjórnmálamenn slepptu gráðugum excel-stuttbuxna guttum lausum með banka upp á arminn, eftirlitslausum.

Allt þetta er tíundað í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Auðvitað eiga einstakir fjárglæframenn sem voru ekki í flokknum líka sök en ef að 2 ára krakki treður kettlingnum í örbylgjuofninn leitum við orsakanna hjá barnapíunni og foreldrunum. Það er tæpast hægt að refsa óvitanum. Hér varð til kærulaus elíta sem græddi á daginn og grillaði á kvöldin. Framámenn og ákveðinn kjarni í flokknum eiga stærstan þátt í því hvernig þjóðfélag byggðist hér upp síðustu áratugi og bera ábyrgð.

Og í þennan flokk fæddist ég. Notaði fyrsta kosningarétt minn til að kjósa Davíð sem borgarstjóra og kaus flokkinn eftirleiðis fram að hruni. Virðing var borinn fyrir stjórnmálamönnum og orð þeirra innbyrgð gagnrýnislaust. Stétt með stétt o.s.frv. Annað kom ekki til greina. Eitt slagorðið í kosningum 2007 var efnahagslegur stöðugleiki !

Svo gerist það að það Hrynur allt bankakerfið með hrikalegum afleiðingum fyrir okkur öll. Og það rennur upp fyrir manni eins og barninu í sögum H.C. Andersen að keisarinn var alsnakinn. Það stóð ekki steinn yfir steini hjá velklæddum framármönum flokksins, þeir voru með allt niðrum sig og búnir að gera feitt uppá bak. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er þetta rakið í smáatriðum.

Árið eftir hrun er undirbúinn Landsfundur og formannskjör. Raddir innann flokksins knýja á um að það þarf að gera eitthvað. Hvað fór úrskeiðis, draga lærdóm og má ekki gerast aftur heyrðist hvíslað á göngum. Skipuð var Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins og langar mig til að vitna í inngang að drögum sem birtust fimmtudaginn, 26. febrúar 2009

"Það er flokknum hollt að líta um öxl og reyna að svara heiðarlega hvað það var sem brást og hvað hefði mátt gera betur. Hér er gerð tilraun til að varpa nokkru ljósi á atburðarásina og þar dregin fram hugsanleg mistök stjórnvalda og stofnana á vegum stjórnvalda á undangengnum árum. Gagnrýni þessi gerir ráð fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefði, með öðrum viðbrögum, aðgerðum , m.a. með lagasetningum eða breytingum á núgildandi lögum, getað minnkað skaðann sem hrun bankanna hafði á þjóðarhag"

Svo mörg voru þau orð og maður fylltist bjartsýni og trú að nú hæfist ferli fyrirgefninga og sátta sem myndi skila okkur skjótar upp úr þeim neikvæða graut sem farinn var að malla. En nei, aldeilis ekki. Þessi eina viðleitni flokksins var skotin í kaf af Davið Oddsyni á landsfundinum þar sem hann hæddist að fólki, upphóf sjálfann sig og kenndi öllum öðrum um. Og það sem verra var að í fullkominni meðvirkni risu landsfundarfulltrúar á fætur og hylltu Hrunameistarann með dynjandi lofataki. Svona eins og til að hnykkja á að hann hefði alltaf rétt fyrir sér og ætti að sjálfsögðu síðasta orðið.

Það kom svo síðar í ljós hjá Rannsóknarnefnd Alþingis að skýrsla endurreisnar-nefndar sjálfstæðisflokksins var alsekki fjarri sannleikanum og það veit sá sem vita vill.

Enn í dag hefur enginn af fyrrum ráðherrum eða þingmönnum stigið fram af auðmýkt og rakið af heilindum hvað gerðist, afhverju og hverja er um að ræða. Enginn lýsir ábyrgð hvað þá sök og vegna þess, er mér sem og tugþúsundum annara, fyrirmunað að fyrirgefa. Það er bara ekki að gerast.

Og hvar stendur maður þá. Er ekki bara best að skilja við þetta pakk eins og forsmáð eiginkona sagði eitt sinn. Jú það er útséð um að þetta uppgjör eigi sér stað. Þessvegna ætla ég að láta það verða mitt síðasta verk sem flokksbundinn Sjálfstæðismaður að kjósa í komandi prófkjöri og segja mig síðan úr flokknum og hreinlega stíga út úr þessum drullupolli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband